Skip to main content

Fráveitulausnir á Egilsstöðum og í Fellabæ

mynd1

Fráveitukerfið á Egilsstöðum og í Fellabæ er að mestu leyti einfalt kerfi, þ.e. sameiginlegar lagnir fyrir skólp, hitaveitu- og regnvatn. Hins vegar í nýjustu hverfum eru regn- og skólplagnir aðskildar (tvöfalt kerfi).

Á Egilsstöðum og Fellabæ eru fjögur hreinsivirki og eru þau öll rekin af Bólholti. Þrjú eru á Egilsstöðum og eru þau öll með útrás í Eyvindará og eitt í Fellabæ með útrás í Lagarfljót. Á Egilsstöðum eru um 35% fasteigna tengd rotþró sem staðsett er í Egilsstaðavík og er með útrás í Lagarfljótið. Í Fellabæ eru einungis 29% fasteigna tengd hreinsivirki. Aðrar fasteignir eru tengdar þremur rotþróm sem öll eru með útrás í Lagarfljótið.

Skólphreinsivirkin anna ekki nema hluta af því vökvamagni sem er á kerfinu og fer því óhreinsað skólp beint út í Eyvindará og Lagarfljót um yfirföll. Er ástandið í Eyvindaránni víðast hvar ófullnægjandi.

Tafla sýnir 95% rennsli og afkastagetu stöðvanna. En 95% rennslið eru hönnunarforsendur hreinsivirkja.

Tafla rennsli

mynd honnunarforsendur

 

Stærð núverandi hreinsistöðva eru reiknaðar í persónueiningum samkvæmt evrópskum staðli þar sem viðmið er 250 lítrar/íbúa á dag. Mælt rennsli í kerfinu, frá árunum 2000 (Mannvit verkfræðistofa) og 2016-2017 (Efla), sýnir að rennslið er mjög hátt eða um 2200 lítrar/íbúa á dag. Afköst hreinsistöðvanna á Egilsstöðum eru innan við 20 l/s en til að uppfylla reglugerð þyrftu þau að vera 120 l/s eða 6 falt meiri.

 

texti

Ástæða þessa mikla vatns í kerfinu er innleki jarðvatns í lagnirnar, bakrás hitaveitu og ofanvatn.

Ef á að halda áfram með núverandi stefnu þarf að tvöfalda fráveitukerfið til að draga úr vatnsmagni og stækka stöðvarnar. Full tvöföldun fráveitunnar kostar 1000 – 1400 milljónir króna. Heildarkostnaður árið 2017 við núverandi hreinsistöðvar voru um 49 milljónir. Ef hreinsistöð í Egilsstaðavík væri komin (í stað rotþróar) gæti árlegur kostnaður við stöðvarnar verið kominn í yfir 150 milljón krónur á ári ef miðað er við núverandi kostnað við hreinsun.

Ráðgjafar mæla með einni miðlægri hreinsistöð með útrás í Lagarfljótið og tvöföldun kerfisins á skynsamlegum hraða. Fyrsti áfangi verður því að ná að hreinsa allt skólp með eins þrepa hreinsun. Næsti áfangi verði að uppfylla gildandi reglugerð, þ.e. bæta við lífrænum einingum (tveggja þrepa hreinsun).

Eins þreps hreinsun er hreinsun á skólpi með t.d. felliþróm eða beltasíum. Þannig að BOD5 – gildi skólps er lækkað um að minnsta kosti 20% og heildarmagn svifagna er lækkað um að minnsta kosti 50%. Tveggja þrepa hreinsun er frekari hreinsun skólps en eins þreps með aðferð sem oftast felur í sér líffræðilega hreinsun. Lækkun BOD5 um 70-90% og lækkun svifagna um 90%.

Reglugerð um fráveitur og skólp (nr. 798/1999) segir að skólp skal hreinsa með tveggja þrepa hreinsun áður en því er veitt í viðtaka. Hins vegar ef viðtaki sé skilgreindur sem síður viðkvæmur skal hreinsa með a.m.k. eins þreps hreinsun. Síður viðkvæmur viðtaki er skilgreindur sem strandsjór þar sem endurnýjun vatns er mikil og ekki hætta á ofnæringu eða súrefnisþurrð vegna losunar skólp frá þéttbýli.

Reglugerðin gerir ekki greinarmun á bergvatnsá og jökulá. Ráðgjafar telja þó að Lagarfljótið sé góður viðtakandi þar sem endurnýjun vatns er mikil. Sólarhringsrennsli í Lagarfljótinu við Lagarfossvirkjun árið 2014 var bilinu 100-770 m3/s, að meðaltali 280 m3/s. Minnsta rennsli Lagarfljóts fer ekki neðar en 100 m3/s. Meðan Eyvindará, sem er bergvatnsá, er vatnsmagnið í henni aðeins um 11 m3/s að meðaltali eða tæp 4% af rennsli Lagarfljótsins. Á veturna er oftá tíðum mjög lítið rennsli í Eyvindará, 1-2 m3/s.

Kostnaður við fyrsta áfanga í uppbyggingu kerfisins er áætlaður 550 milljónir króna og muni taka um 10 ár, eða 55 milljónir á ári næstu 10 árin. Rekstrarkostnaður hreinsistöðvar og dælustöðva stofnlagna er áætlaður um 25 milljónir króna á ári. Ef miðað er við 35 ára meðalendingu og þessarar fjárfestingar og 5% fjármagnskostnaðar má segja að árlegur kostnaður við þessa breyttu áætlun sé um 60 milljónir króna á ári. Þetta er mun lægri kostnaður en við núverandi fyrirkomulag. Kostnaður við uppbyggingu annars áfanga er áætlaður um 300 milljónir og hækkar áætlaður rekstrarkostnaður við stöðina þá um 50% eða upp í 90 milljónir króna á ári. 

  

Tafla rennsli lagf

 

Þann 1. febrúar síðastliðinn var haldinn borgarafundur til að kynna stöðu og framtíðaráform fráveitunnar á Egilsstöðum og Fellabæ.

Gunnar Jónsson formaður stjórnar HEF setti fundinn.

Guðmundur Davíðsson framkvæmdastjóri HEF fór yfir rekstrarkostnað hreinsivirkjana.

Lára Guðmundsdóttir fór yfir sýnatöku og mælingar HAUST.

Reynir Sævarsson verkfræðingur frá Eflu verkfræðistofu fór yfir framtíðarlausnir í fráveitumálum. 

Fundarstjóri var Jón Jónsson lögmaður og fundarritari Stefán Bragason.

Hér fyrir neðan eru linkar að fundarritun og glærum þeirra sem tóku til máls.

·         Fundarritun

·         Guðmundur Davíðsson

·         Lára Guðmundsdóttir

·         Reynir Sævarsson

Hér má finna skýrslu frá verkfræðistofunni Mannvit

·         2012 Fráveita á Egilsstöðum og í Fellabæ – Mannvit

Æskilegur bakrásarhiti að sumarlagi er ekki hærri en 22-25°C.