Skip to main content

Jarðhitaleit við Djúpavog heldur áfram

Í næstu viku eigum við hjá HEF veitum von á jarðbornum Trölla sem Ræktunarsamband Skeiða og Flóa á. Með honum stendur til að bora tilraunavinnsluholu á jarðhitasvæðinu í landi Búlandsness en þar hefur þegar fundist jarðhiti. Saga rannsókna á svæðinu nær aftur til 1994 þegar fyrsta rannsóknarholan var boruð. Árið 2007 var hola númer 28 boruð og úr henni renn um 4 l/sek af 45°C heitu vatni.

Í fyrstu stóð Djúpavogshreppur fyrir rannsóknum og framkvæmdum. Um tíma tók Rarik við verkefninu en núna eftir stofnun Múlaþings er verkefnið á forsjá HEF veitna.

Nú er markmiðið að skera þekkta jarðhitaæð á 600-800 m dýpi en vísbendingar gefa til kynna að þar megi nálgast 70-80°C heitt vatn. Takist það er stefnt á að leggja hitaveitu til Djúpavogs með tvöföldu kerfi og niðurdælingu affallsvatns svipað og gert er á Eskifirði.

Nú í haust hlaust styrkur upp á 135 milljónir frá Orkusjóði til verkefnis sem ætlaður var til jarðhitaleitar á rafhituðum svæðum.

Á meðan borun stendur ætlum við að setja inn uppfærslur hér á vefsíðu okkar þar sem hægt verður að fylgjast með gangi mála.