Skip to main content

Vatnsveitur HEF

Árið 2005 tók HEF við rekstri á vatnsveitum Fljótsdalshéraðs en þær eru fimm talsins þ.e. vatnsveitan á Egilsstöðum og í Fellabæ, Hallormsstað, Eiðum, Brúarási og Sænautaseli.  Áður var vatnsveitan á Egilsstöðum og í Fellabæ tvö aðskilin veitusvæði. Árið 2009 tók HEF í notkun nýtt vatnsból við Köldukvísl á Eyvindarárdal. Þar eru þrjár borholur sem gefa samtals um 65 l/s og sinna bæði Egilsstöðum og Fellabæ.

Heilbrigðiseftirlit Austurlands (HAUST) annast reglubundið eftirlit með vatnsveitunum skv. reglugerð um neysluvatn. 

Vatnsveitan á Egilsstöðum og í Fellabæ

Vatnstökusvæðið er við Köldukvísl á Eyvindarárdal en það var tekið í notkun í lok árs 2009. Við Köldukvísl eru þrjár borholur KVV-1, KVV-2 og KVV-3. Saman geta þessar þrjár holur skilað 65 l/s. KVV-1 hefur 12 l/s í afkastagetu, KVV-2 hefur 28 l/s og KVV-3 hefur 25 l/s. Vatnið er leitt af Eyvindarárdal í 7.400 m lögn að 720 tonna miðlunartanki á Selöxl í Egilsstaðaskógi. Tanknum er skipt upp í tvö 310 m3 hólf.

Vatnsveitan á Hallormsstað

Vatnsveitan þjónar þéttbýliskjarna Hallormsstaðar og tjaldsvæði Skógræktar ríkisins við Höfðavík. Vatn er tekið úr brunni í Staðará. Úr brunninum er dælt upp í miðlunargeymi sem staðsettur er í hlíðinni fyrir ofan við Hússtjórnarskólann.

Vatnsveitan á Eiðum

Vatnsveitan þjónar þéttbýliskjarna Eiða. Hún er skilgreind sem lítil vatnsveita, þ.e. vatnsveita fyrir undir 150 íbúa.

Vatnstökusvæðið er staðsett norðan við endurvarpsstöð Ríkisútvarpsins. Þar eru þrjár borholur virkjaðar og er vatnið leitt í 120 m3 miðlunartank. Við miðlunartankinn er dæluhús. Tankur og dæluhús er um það bil í 80 til 300 metra fjarlægð frá borholum.

Vatnsveitan Brúarási

Vatnsveitan þjónar Brúarásskóla, húsunum þar í kring og Sellandi. Vatnsveitan flokkast sem lítil vatnsveita (<150 íbúa). Borholan sem var virkjuð árið 1993 er staðsett á lóð Brúarás. Hún er 123 metra djúp og er dælan staðsett í 80 metrum.

Vatnsveitan Sænautaseli

Vatnsveitan þjónar Sænautaseli við Sænautavatn og flokkast hún sem lítil vatnsveita matvælavinnslu. Vatnsbólið er í um 1 km fjarlægð frá Sænautaseli og er lindarbrunnur. 

Fréttir sem tengjast vatnsveitum

Látið fagmann um að stilla ofnakerfið.