Hitaveita Egilsstaða og Fella
Hitaveita Egilsstaða og Fella var stofnuð 22. mars 1979 og er sjálfstætt fyrirtæki í fullri eigu Fljótsdalshéraðs. Fyrir þann tíma var olía að mestu leyti notuð til húshitunnar en þegar heimsverð á olíu hækkaði fóru menn að huga að hitanum á botni Urriðavatns. Urriðavatn er staðsett tæpa sex kílómetra frá Egilsstöðum og myndaði heita vatnið svokallaðar Tuskuvakir. Kynjaskepnan Tuska átti að hafa nýtt sér vakirnar til að komast úr vatninu.
Upphafsárin einkenndust af mikilli rannsóknarvinnu og voru sex holur boraðar við Urriðavatn frá árunum 1975 til 1983. Fjórða holan sem boruð var tókst vel en hún gaf af sér 15l/s af 64 °C heitu vatni. Sú hola leiddi til þess að veitan var stofnuð árið 1979. Fljótlega kom upp vandamál, en vatnið í holum UV-04 og UV-05 fór kólnandi og árið 1983 var það komið niður í 50 °C. Hafist var þá handa við frekari leit og á meðan var sett upp kyndistöð til að skerpa á hita vatnsins. Árið 1983 var hola UV-08 boruð og gaf hún um 46l/s af 75 °C heitu vatni , sem dugði sem aðalvinnsluhola. En íbúum fjölgaði ört og árið 2001 var hafist handa að bora fyrir nýrri vinnsluholu, UV-09. UV-09 reyndist ekki eins gjöful og UV-08 en hún hefur nýst sem varahola veitunnar. Árið 2005 var hola UV-10 boruð og gaf hún um 77l/s af 79°C heitu vatni. Í dag er hún aðalvinnsluhola veitunnar.
Það hafa því verið boraðar tíu holur við Urriðavatn og eru þrjár borholur starfræktar í dag. Innan HEF hefur UV-08 fengið viðurnefnið Gullmolinn og UV-10 Demanturinn, vegna afkasta getu þeirra. UV-10 er með öflugustu borholum á lághitasvæði á Íslandi. Árið 2017 var settur nýr og öflugri mótor og dæla síkkuð en við þessar breytingar jókst afkasta geta holunnar í um 100 l/s af 79°C heitu vatni.
Gæði heitavatnsins við Urriðavatn er einstakt en það hefur fengið gæðavottun og má því drekka það beint og nota í matargerð.
Vatnsveitan
Árið 2005 tók HEF við rekstri á vatnsveitum Fljótsdalshéraðs en þær eru fimm talsins þ.e. vatnsveitan á Egilsstöðum og í Fellabæ, Hallormsstað, Eiðum, Brúarási og Sænautaseli. Áður var vatnsveitan á Egilsstöðum og í Fellabæ tvö aðskilin veitusvæði. Árið 2009 tekur HEF í notkun nýtt vatnsból við Köldukvísl á Eyvindarárdal. Þar eru þrjár borholur sem gefa samtals um 65l/s og sinna bæði Egilsstöðum og Fellabæ.
Fráveitan
Árið 2009 tók HEF við rekstri fráveitukerfis sveitarfélagsins. Á Egilsstöðum og Fellabæ eru fjögur hreinsivirki ásamt þrem rotþróm. Skólphreinsivirkin anna ekki nema hluta af því magni sem er í kerfinu. Síðustu ár hefur HEF unnið að því að minnka vatn í fráveitulögnum með því að tvöfalda lagnir og veita regnvatni í opna skurði eða beint út af plönum. Stefna Fljótsdalshéraðs er að fráveitumál sveitarfélagsins byggi á umhverfisvænum lausnum sem skipi því í fremstu röð. Hefur því stjórn HEF samþykkt fjárfestingarstefnu til 10 ára þar sem unnið verði að því markmiði. Felur hún meðal annars í sér að reisa eina hreinsistöð, nægilega öfluga til að anna því magni sem kemur úr fráveitukerfinu.
Gagnaveitan
Frá árinu 2005 hefur HEF gert ráð fyrir möguleika á gagnaveitu í tengslum við framkvæmir við veitukerfi. Í dag telur röra og ljósleiðaranet félagsins yfir 112 km. Gagnaveita er notuð til að fjarstýra öllum útistöðum HEF.
Þróun fyrirtækisins:
1963 Fyrstu rannsóknir um nýtingu heits vatns við Urriðavatn.
1979 Fyrsta borholan virkjuð og stofnun Hitaveitu Egilsstaða og Fella.
2005 HEF tekur við rekstri á Vatnsveitu Fljótsdalshéraðs og rekstrarformi breytt í einkahlutafélag.
2009 HEF tekur í notkun nýtt vatnsból við Köldukvísl á Eyvindarárdal
2011 HEF tekur við rekstri fráveitu Fljótsdalshéraðs.