Nýtum heita vatnið vel. Góð ráð fyrir húseigendur

Hitastigið innanhúss ræður að sjálfsögðu miklu um orkunotkunina. Ef hitakerfið er ekki í jafnvægi fer mikið af heitu vatni til spillis og nýting ofnakerfisins verður ekki eins góð og hún gæti verið. Einnig er mikilvægt að huga að stillingum á snjóbræðslukerfum og heitum pottum

Ofnakerfið

Ef hitakerfi er ekki í jafnvægi fer mis mikið vatn um ofnana og varmanýting þeirra verður slæm. Sumir ofnar fá þá ekki nægilegt vatn og hætta er á að misheitt verði í húsinu. Mikilvægt er að tryggja að hámarkrennsli til ofnana sé takmarkað og að bakrásarhiti (vatn frá ofnum) sé sem lægstur og sem næst því að vera sá sami frá öllum ofnum.

Ef þú reynir að hækka hitann í ofninum án árangurs þá gæti verið að pinninn bakviðhitastillinn (ofnkranann) sé fastur. Þá þarf einfaldlega að liðka pinnann. Virki það ekki þarf að hafa samband við pípara.

Auðvelt er að gera ofn óvirkan með því að byrgja hann með húsgögnum, sólbekkjum og gluggatjöldum. Ef ekki er hugað að þessu dreifist hiti illa um herbergið þar sem ofnloki lokar fyrir rennsli þegar hitastig bakvið húsgögnin hefur náð innstilltum herbergishita.

Nauðsynlegt er að lofta reglulega út. Best er að lofta vel í stuttan tíma í einu frekar en að hafa hurð eða glugga opinn í langan tíma. Þegar loftað er út er góð regla að lækka á ofnum í rýminu um eina tölu meðan á loftun stendur.

Of algengt er að ofnakerfi húsa séu vanstillt og gæti verið gott ráð að fá fagmann til að yfirfara stillingar.

Ef fleiri en einn ofn er í sama rými , eiga þeir að vera eins stilltir. Þannig nýtist varminn í vatninu best. Ef hækkað eða lækkað er á einum stað skal gera það á öllum ofnum í rýminu.

Gott hitakerfi er þegar þægilegur innihiti er í húsum (20°C) og allir ofnar virðast kaldir neðst við snertingu (25-30°C). Ætla má að kostnaður við hitun hækki um allt að 6% fyrir hverja gráðu sem innihitinn er stilltur yfir 20°C.

Hafðu það fyrir reglu að þreifa reglulega á neðsta hluta ofnana. Góð viðmiðun er að taka á einhverjum málmhlut í herberginu, t.d. hurðarhúni, en hann er um 20°C heitur. Ef þetta tvennt er ekki í lagi, þ.e. innihiti þægilegur og ofnar kaldir (volgir) viðkomu neðst, er eitthvað að og líklegt að þú sért að sóa orku og fjármunum.

Heiti potturinn

Það er fátt betra en að hlýja sér í heitum potti. Til að sýna ábyrgð í orkunotkun er þó betra að láta sturtuna duga á allra köldustu dögum ársins. Aðra daga er um að gera að láta renna í pottinn og njóta vel.

Ef potturinn er notaður þrisvar í viku eða oftar getur borgað sig að hafa sírennsli í pottinn. Það fer þó mikil orka til spillis við að halda háu hitastigi á vatninu, jafnvel þó einangrað lok sé yfir potti, og því ráðlagt að lækka hitann milli baða. Ef potturinn er notaður sjaldan er ráðlagt að tæma hann á milli baða. Þá þarf að passa vel uppá að ganga þannig frá lögnum að vatn geti ekki frosið í þeim.

Snjóbræðsla

Við mörg hús í dag eru snjóbræðslukerfi sem nota heitt vatn og geta verið orkufrek.
Snjóbræðslukerfi sem einungis nýta bakrásarvatn húsa skapa ekki hættu á orkusóun. Slík kerfi anna þó ekki nema takmarkaðri stærð snjóbræðslu. Mörg snjóbræðslukerfi eru útbúin skerpingu (innspýtingu) inn á snjóbræðsluna sem stýrist af bakrásarhitanum frá snjóbræðslunni. slík kerfi eru dýrari í rekstri og geta skapað hættu á sóun. Við hönnun snjóbræðslukerfa er ráðlegt að meta kosti þess að hafa kerfið „lokað“, fyllt með vökva með lágt frostmark, (glykol- eða etanól blöndur) og hringrásardælingu um varmaskipti. Slík ráðstöfun getur reynst verðmæt trygging gegn frostskemmdum, sérstaklega ef yfirborð snjóbræðslusvæða er dýrt.
Munum að fylgjast með stýringu snjóbræðslunnar svo hún sé ekki að sóa orku og hækka hitareikninginn.