Virkjunarsvæði hitaveitunnar er við Urriðavatn í Fellum, þar eru þrjár borholur sem eru virkjaðar. Veitan dreifir heitu vatni til heimila og fyrirtækja í þéttbýli Fellabæjar, Egilsstaða og Eiða. Einnig nær veitan inn Velli að sumarhúsabyggð við Einarsstaði og út Eiðaþinghá að Eiðum. Gæði heitavatnsins við Urriðavatn er einstakt en það hefur fengið gæðavottun og má því drekka það beint og nota í matargerð.
Frá virkjunarsvæðinu er dælt upp í miðlunartank sem stendur á Valgerðarstaðaási, hann var byggður árið 1981 og tekur um 700 m3. Útloftun er á miðlunartankinum til að forðast gasmyndun í vatninu sem dreift er til notenda.
Borholur við Urriðavatn:
UV-10
Hola UV-10 var boruð árið 2005. Hún er stefnuboruð 1.350 metra og er holan fóðruð með 500 metra 14"" stálfóðringu. Í byrjun okbóber 2017 var dæla, hraðabreytir og mótor endurnýjað. Nýja dælan er keyrð á 300 hp mótor og full afkastageta hennar er um 110-120 sekúndu lítrar af 79°C heitu vatni.
UV-09
Hola UV-09 var boruð árið 2001. Hún er dýpsta holan við Urriðavatn 1.841 metra djúp. Nokkur vonbrigði urðu með holuna því menn höfðu vænst að fá um 40 sekúndulítra af 75°C heitu vatni, en fengu aðeins um 15 sekúndulítra.
UV-08
Hola UV-08 var boruð árið 1983 og er 1.006 metra djúp. Hún gefur frá sér 46 sekúndulítra af um 75°C heitu vatni.