Upplýsingar til íbúa á Seyðisfirði

Kyndistöðin á Seyðisfirði.
Kyndistöðin á Seyðisfirði.

Fjarvarmaveitunni á Seyðisfirði var komið á fót árið 1981 fyrir tilstuðlan RARIK og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Frá árinu 1992 hefur RARIK séð um rekstur veitunnar og kynt upp meirihluta húsa bæjarins. RARIK áformar að segja sig frá áframhaldandi rekstri veitunnar frá næstu áramótum.

Starfshópur á vegum Múlaþings, HEF veitna og RARIK, kannaði fýsileika nokkurra valkosta fyrir fjarvarmaveituna á Seyðisfirði, með aðkomu ráðgjafa og Orkustofnunar. Niðurstöður voru kynntar á íbúafundi í maí 2022 og birtar í skýrslu í kjölfarið. Þar var farið í gegnum upplýsingar um orku- og aflnotkun veitunnar, ástand dreifikerfisins og frumáætlun um endurnýjun þess. Möguleikar á tengingu við hitaveitukerfi Egilsstaða voru kannaðir, auk fleiri lausna á borð við rekstur miðlægrar varmadælu sem ynni orku úr sjó og að koma upp varmadælu í hvert hús. Hitaveita frá Egilsstöðum reyndist ekki hagkvæm og miðlæg sjóvarmadæla reyndist ekki raunhæf vegna lágs sjávarhita og fjarlægðar kyndistöðvar frá sjó. Varmadæla í hvert hús er hagkvæmur kostur fyrir notendur, en hávaðamengun fylgir þeirri lausn. Fyrir smærri notendur sem njóta niðurgreiðslu getur uppsetning rafhitatúpu verið raunhæf lausn, en minnkar ekki raforkunotkun.

Hagkvæmni reksturs fjarvarmaveitunnar og orkuverð til notenda veltur á öruggri afhendingu raforku, á viðráðanlegu verði. Trygg raforka er nauðsynlegur liður í því að hætta olíunotkun, sem hefur verið all nokkur undanfarna vetur þegar til skerðinga á afhendingu raforku hefur komið.

Fyrir dyrum standa breytingar á raforkulögum, en þeirri endurskoðun hefur seinkað nokkuð. Fyrir framtíð fjarvarmaveitna á Íslandi er grundvallaratriði að farsæl lending náist í verðlagningu raforku sem og afhendingaröryggi til húshitunar til framtíðar.

Dreifikerfið, sem kyndir upp rúmlega þriðjung bæjarins, er barn síns tíma og ljóst að ráðast þarf í framkvæmdir til að tryggja öryggi og lágmarka orkutap. Að nýta þessa innviði er vilji sveitarfélagsins og getur reynst hagkvæmt að reka kyndistöðina áfram með miðlægri varmadælu sem nýtir orku úr andrúmsloftinu. Að nýta jarðvatn til orkuvinnslu í varmadælu er einnig til skoðunar og er nauðsynlegt að fara í rannsóknarboranir til að fá úr því skorið hvort um raunhæfan kost sé að ræða fyrir Seyðisfjörð. Reynist svo, er líklegt að þar yrði um hagkvæman og umhverfisvænan kost að ræða fyrir miðlæga fjarvarmaveitu. Forsendur fyrir rekstri eru jafnframt þær að raforka sé trygg og því ljóst að áðurnefnd lagabreyting þarf að greiða leiðina fyrir veituna.

Einn þeirra valkosta sem skoðaðir hafa verið er að færa kyndinguna til hvers notanda, með uppsetningu varmadæla eða hitatúpa og leggja niður rekstur kyndistöðvarinnar, sem er vissulega afturför og ekki sú niðurstaða sem vonast er eftir.

Unnið verður áfram að greiningu og rannsókn valkosta, með það að markmiði að hægt verði að kynna endanlegar niðurstöður fyrir íbúum á haustmánuðum.

 

Múlaþingi, júlí 2024

F.h. HEF veitna og sveitarfélagsins Múlaþings

Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings

Guðlaugur Sæbjörnsson, fjármálastjóri Múlaþings

Aðalsteinn Þórhallson, framkvæmdastjóri HEF veitna

Ágústa Björnsdóttir, formaður stjórnar HEF veitna

Védís Vaka Vignisdóttir, verkefnastjóri HEF veitna