Uppfært 5.12.2024 - Ekki lengur nauðsynlegt að sjóða drykkjarvatn í Hallormsstað

Staðará við vatnsból Hallormsstaðar
Staðará við vatnsból Hallormsstaðar

5.12.2024

Nú er hreinsun vatnstanksins lokið og gekk það vel. Við tekur að tengja nýjar lagnir við tankinn og frágangur. Þá verður hægt að fylla vatnstankinn aftur og binda endahnút á þessar endurbætur. Við þrif á vatnstankinum fannst ekkert óvenjulegt, aðeins leir og fínn sandur sem komist hefur í gegnum síur, auk steypubrota sem flagnað hafa af veggjum tanksins. Við erum afar ánægð með það og vatnsgæði á Hallormsstað ættu að vera góð komi ekki til meiriháttar bilana.
 

27.11.2024 - Ekki lengur þörf á að sjóða vatn í Hallormsstað.

Niðurstaða úr sýnum sem tekin voru í byrjun vikunnar komu vel út og hefur HAUST aflétt tilmælum um að sjóða þurfi neysluvatn í Hallormsstað. Íbúum er þó bent á að láta renna vel úr krönum sem ekki hafa verið notaðir undanfarna daga til að skola lagnir.

HEF veitur vill þakka íbúum og gestum í Hallormsstað kærlega fyrir sýnda þolinmæði.

Vatnsveitan er áfram á framhjáhlaupi og bráðabyrgða geymi þar til framkvæmdum við aðalgeyminn líkur. Þegar framkvæmdum líkur mun HAUST taka sýni til að tryggja að vatnsgæði séu í lagi eftir framkvæmdir.

 

26.11.2024

Nú er vatnsveitan komin á framhjáhlaup framhjá vatnstanki og munu framkvæmdir á honum hefjast á morgun. Á framhjáhlaupinu rennur vatnið í gegnum nýtt gegnumlýsingartæki og ætti því að vera öruggt neyslu. Það er þó háð skolun úr kerfinu og sýnatöku frá HAUST og áfram gilda tilmæli um suðu á neysluvatni.

Á meðan þessu stendur biðjum við notendur að fara sparlega með vatnið og fylgjast vel með breytingum. Einnig bendum við notendum á að tilkynna strax ef vart verður við vatnsleysi til okkar með því að hringja í síma 4700780.

Að loknum framkvæmdum og þrifum á vatnstanki kemst vatnsveitan í það horf sem við viljum hafa hana, en líklega verður það í næstu viku.

23.11.2024

Seint í gærkvöldi tókst að koma nýja gegnumlýsingartækinu í gang. Ekki tókst að setja upp framhjáhlaup svo nú rennur vatn í gegnum tækið og í vatnstankinn. Mengunin fer því að þynnast út og ætti að hverfa með tímanum. Enn stendur til að koma upp framhjáhlaupi og fara í meira viðhald og framkvæmdir í vatnstankinum og verður það gert eftir helgi. Vatnssýni verður tekið eftir helgi og vonumst við til að lyfta suðukröfum í kjölfarið. 

22.11.2024

Ekki tókst að gangsetja nýtt gegnumlýsingartæki í dag og því verður óbreytt ástand fram yfir helgi. 

Við biðjumst velvirðingar á þessum töfum. 

 

21.11.2024

Vinna heldur áfram í lagnarýminu og í þessum töluðum orðum er verið að setja upp síur og nýja gegnumlýsingartækið. Það þarf að kalla til rafvirkja til að tengja og gangsetja það og verður það gert á morgun. Við erum því að vonast eftir því að vatn fari að renna um tækið á morgun. Sýnataka á nýju og vonandi hreinu vatni mun því væntanlega fara fram á mánudag.

20.11.2024

Í dag hófst uppsetning á nýjum lögnum og reiknað er með því að nýtt geislatæki fari upp á morgun á framhjáhlaupi og vatnsgæði ættu með því að vera trygg. Aflétting á suðukröfum er þó háð sýnatöku á vatninu og ekki ljóst að það gerist fyrir helgi. Með nýtt gegnumlýsingartæki á framhjáhlaupi verður farið í þrif á vatnstanki og endurnýjun á lögnum heldur áfram. Því er líklegt að vatnstankurinn verði ekki í notkun frá morgundeginum og eitthvað fram í næstu viku.

19.11.2024

Lagnavinna er hafin og gegnumlýsingartækið er komið í okkar hendur. Allt kapp verður lagt á að koma því í gagnið sem fyrst. Við biðjum fólk að fara sparlega með vatn á næstu dögum til að auðvelda okkur framkvæmdirnar. 

13.11.2024 

Framkvæmdir við vatnstankinn á Hallormsstað hófust í dag og halda áfram næstu daga. Þó verður sama fyrirkomulag á lögnum og afhendingu vatns þangað til eftir helgi. Ef kemur til þess að lokað verði fyrir vatn verður fréttin uppfærð og við munum senda út SMS. Gott að fylgjast með hér á síðunni sérstaklega eftir helgi.

Form til að fara á SMS lista hjá HEF veitum og fá tilkynningar vegna framkvæmda/atvika

12.11.2024

Ljóst er að nýtt gegnumlýsingartæki kemur til landsins öðru hvoru megin við helgi og því munu framkvæmdir við vatnstankinn hefjast í vikunni. Ráðgert er að bæta aðgengi og vinnurými í lagnarýminu til að undirbúa komu nýs tækis. Þegar við fáum það í hendunar verður það sett upp á nýju framhjáhlaupi framhjá vatnstankinum og vonandi verða þá vatnsgæði komin í lag. Þá verður vatntankurinn tæmdur og þrifinn og allar lagnir teknar í gegn. Að því loknu verður framhjáhlaupið tekið úr notkun og vatnsveitan ætti þá að vera komin á þann stað sem við viljum hafa hana. Á meðan þessum framkvæmdatíma stendur getur vatnsþrýstingur breyst og jafnvel að það þurfi að loka fyrir afhendingu vatns til skamms tíma. Við biðjum notendur að fara sparlega með vatn á meðan vatnsveitan verður í framhjáhlaupi og vatnstankurinn ekki í notkun. Það gæti orðið frá byrjun næstu viku. Rétt að ítreka að áfram þarf að sjóða vatn til neyslu. Hér má finna leiðbeiningar um suðu á neysluvatni.

 

07.11.2024

Á þriðjudaginn voru sýni tekin á Hallormsstað og mældist saurkóligerlamengun í þeim. Ljóst er að þetta ástand mun vara lengur og áfram þarf að sjóða neysluvatn. Allt kapp verður lagt á að ná vatnsgæðum í lag en einungis nýtt gegnumlýsingartæki kemur til með að leysa vandann. Samhliða uppsetningu þess verður farið í endurbætur á lögnum og vatnstanki sem kunnu að valda einhverjum skammvinnum truflunum á afhendingu vatns. Panta þurfti nýtt gegnumlýsingartæki að utan og afhendingartími því miður langur. 

HEF veitur biðjast velvirðingar á ástandinu.

01.11.2024

Nú í vikunni voru tekin sýni af vatninu á Hallormsstað og ástandið hefur batnað mikið en enn gætir mengunar í dreifkerfi vatnsveitunnar. Því þarf enn að sjóða neysluvatn.

Starfsfólk HEF veitna hefur farið yfir stýringar, kerfi og vatnsveituna í heild sinni og hafa vatnsgæði batnað við það. HEF veitur munu fygljast náið með vatnsgæðum áfram. Ekki er þó hægt að ábyrgjast virkni gegnumlýsingartækisins svo vatnsgæði eru ekki trygg, en með eftirliti vonunst við til þess að geta haldið stöðunni góðri þar til nýtt lýsingartæki sem er í pöntun verður sett upp.

Samfara uppsetningu nýs lýsingartækis munum við fara í gagngerðar endurbætur á vatnstankinum og lögnum tengdar honum til að tryggja vatnsgæði til frambúðar.

Við þökkum íbúum fyrir þolinmæði og skilning á meðan þetta ástand gengur yfir.

 

24.10.2024 13:00

Kæru íbúar og gestir í Hallormsstað. Nú er orðið ljóst vandamál varðandi mengun í vatnsbólinu eru meiri en haldið var í upphafi. Það er því þörf á að fara í framkvæmdir til að ástandið verði í lagi. Það verður til þess að það mun taka lengri tíma að ná fullnægjandi gæðum á vatninu.

HEF veitur vinna nú í því að panta búnað og efni og munu framkvæmdir hefjast eins fljótt og auðið er. Þangað til er nauðsynlegt að sjóða drykkjarvatn en óhætt er að nota vatnið til annarra nota svo sem baða og þvotta.  Hér má finna leiðbeiningar um suðu á neysluvatni

Þeir íbúar sem fengu ekki SMS, frá okkur, föstudaginn 18. október geta skráð símanúmer sitt á tilkynningalista HEF með því að fylla út formið sem fylgir fréttinni.

Form fyrir tilkynningar frá HEF veitum

HEF veitur biðjast velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.

21.10.2024 11:00

Heilbrigðisteftirlitið ætlar að taka sýni eftir hádegi í dag.  Það getur svo tekið 3-4 daga að fá niðurstöður úr sýnum.

21.10.2024

Á föstudaginn var skipt um lýsingatæki í vatnstanki.  Við getum samt ekki mælt með að drekka vatn ósoðið fyrr en Heilbrigðiseftirlitið hefur staðfest vatnsgæðin.  Það er óvenju mikið rennsli úr tankinum sem bendir til að einhversstaðar sé leki í kerfinu eða að einhversstaðar sé opið fyrir krana sem ætti að vera lokaður.  Ef íbúar verða varir við eitthvað óvenjulegt eru þeir beðnir að láta okkur vita í síma 4 700 780 eða senda póst á hef@hef.is

--------------------------------------------- 

Við sýnatöku á neysluvatni á Hallormsstað í vikunni mældist vatnið mengað af kólígerlum. Þetta gefur til kynna að vatnið er mengað af saur frá mönnum eða blóðheitum dýrum. Nauðsynlegt er að sjóða vatn til neyslu. Óhætt er að nota vatnið til annarra þarfa s.s. til baða, þvotta og matargerðar s.s. til skolunar á matvælum, sem munu síðar vera elduð.  

Hér má finna leiðbeiningar um suðu á neysluvatni

Ljóst er að um bilun í gegnumlýsingarbúnaði að ræða. Starfsmenn HEF munu vinna að viðgerð eins fljótt og auðið er.