Uppfært: Borbræður halda áfram leit að heitu vatni við Djúpavog

Árið 1994 var fyrsta hitastigulsholan í nágrenni Djúpavogs boruð.  Holan þótti gefa vísbendingu um að finna mætti jarðhitasvæði í nágrenni hennar en hitastigullinn var 84°C/km.  Síðan þá hefur svæðið verið kortlagt og margar holur boraðar.  í byrjun árs 2024 hófu HEF veitur borun á holu sem vonast er til að geti gefið nægilegt magn af heitu vatni til að þjónusta þéttbýlið á Djúpavogi.

Hér er hægt að lesa sögu jarðhitaleitar við Djúpavog.

Borbræður og Blámi koma sér fyrir á borplani í hríðarveðri.
Borbræður og Blámi koma sér fyrir á borplani í hríðarveðri.

Uppfært 13.feb

Í gær var borað í sprungu á um 160 m dýpi. Þessari holu, sem er fyrst og fremst rannsóknarhola, var ætlað að sýna fram á tengingu milli annara hola á svæðinu, og virðist það hafa tekist. Holan endaði í 204 metrum og úr henni kemur töluvert af volgu vatni. Holan verður hitamæld. Borbræðu undirbúa sig í kjölfarið til þess að bora aðra holu á svæðinu, sem kann að verða 400 metra djúp að endingu.

Upprunaleg frétt

Borbræður, borfyrirtæki Davíðs Skúlasonar og Guðlaugs Helgasonar, komu bornum Bláma fyrir á borplani á jarðhitasvæðinu við Djúpavog fyrir helgi og undirbúa borun á tveimur rannsóknarholum á svæðinu. Stefnt er á að þær verði um 200 m og 400 m djúpar.

Markmiðið er að renna stoðum undir þrívíddarlíkan sem Ísor gerði fyrir okkur af svæðinu og nota holurnar til að uppfæra líkanið. Það teiknaði upp örlítið breytta legu frá því sem reiknað var með og í þetta sinn er borað fyrir norðan veg. 

Ísor verður fengið til að mynda holurnar að borun lokinni og líkanið uppfært. Í kjölfarið er markmiðið að staðsetja vinnsluholu með þessum uppfærðu upplýsingum.

Við þökkum Borbræðrum  og SG vélum fyrir þátttöku í þessu verkefni.

Fréttin verður uppfærð þegar dregur til tíðinda.